H. G. Wells
H. G. Wells var fjölhæfur rithöfundur sem auk þess að vera kunnur skáldsagnahöfundur skrifaði jöfnum höndum um sagnfræði, stjórnmál og samfélagsmál almennt. Í dag er hans þó helst minnst fyrir vísindaskáldsögur sínar og hefur stundum verið kallaður faðir slíkra sagna ásamt með Jules Verne og Hugo Gernsback. Þekktustu sögur hans eru sögurnar Tímavélin (The Time Machine 1896), Ósýnilegi maðurinn (The Invisible Man 1897) og Innrásin frá Mars (War of the Worlds).
Wells lagði í upphafi stund á náttúrufræði og aðhylltist skoðanir Darwins í þeim efnum. Þá var hann lengst af einarður sósíalisti og mikill friðarsinni. Þrátt fyrir vinsældir vísindaskáldsagna hans hætti hann fljótlega að skrifa slíkar sögur og sneri sér að sögum þar sem pólitísk trú hans fékk að njóta sín. Var honum þá stundum líkt við sjálfan Charles Dickens, en ólíkt Dickens hafa þær sögur ekki staðist tímans tönn.
Herbert George Wells fæddist í Kent 21. september árið 1866. Var hann fjórða og yngsta barn foreldra sinna. Í æsku var hann kallaður Bertie. Faðir hans vann við garðyrkju og rak verslun en stærstan hluta af tekjum sínum fékk hann sem atvinnukrikketleikari. Tekjur voru því stopular.
Það er haft eftir Wells að það sem hafði mest áhrif á hann sem persónu var að hann fótbrotnaði þegar hann var átta ára gamall. Í kjölfarið var hann rúmfastur um tíma og þá var ekkert annað við að vera en að lesa bækur. Fór faðir hans reglulega á bókasafnið og fékk lánaðar bækur handa honum. Þetta vakti áhuga drengsins á fjarlægum heimum og kveikti í honum áhuga að fara að skrifa sjálfur.
Árið 1877 varð faðir hans fyrir því óláni að mjaðmagrindarbrotna og við það hrundi fjárhagur fjölskyldunnar, því nú gat hann ekki lengur unnið fyrir sér við að leika krikket. Það varð til þess að Wells var sendur til þess að verða lærlingur hjá vefnaðarvörukaupmanni. Leið honum illa í þeirri vist þar sem vinnudagurinn var að jafnaði þrettán klukkustundir og hann þurfti að sofa í heimavist með öðrum lærlingum.
Birtist þessi reynsla hans síðar í bókum eins og The Wheels of Chance og Kipps þar sem ein persónan starfar sem lærlingur hjá vefnaðarvörukaupmanni. Þá vakti þetta drenginn til umhugsunar um ólíka stöðu einstaklinga í þjóðfélaginu.
Hjónaband foreldra hans mun víst oft hafa verið erfitt, ekki síst fyrir þá sök að móðir hans var trúhneigð kona en faðir hans trúleysingi. Á þessum erfiðu tímum þurfti móðir hans að fara að vinna sem þjónustustúlka og komst í vist þar sem þau hjónin gátu ekki búið saman og ekki gat hún heldur haft börnin með sér. Eftir það lifðu þau hjón aðskildu lífi þó svo að þau hafi aldrei skilið og héldu tryggð við hvort annað ævina út.
Wells var á þessum árum ýmist í skóla eða sem lærlingur hjá ýmsum iðnfyrirtækjum en tókst á endanum að ljúka grunnnámi með ágætum árangri og fékk í kjölfarið inni í Vísindaháskóla í London og sérhæfði sig í líffræði. Skólalífið átti ágætlega við hann og hann tók virkan þátt í félagslífi á vegum skólans. Þá stofnaði hann ásamt öðrum skólablað og var duglegur að leggja til efni. Þar birtist meðal annars frumgerðin af sögunni The Time Machine undir nafninu The Chronic Argonauts.
Hann útskrifaðist úr skólanum 1887 og þurfti nú einhvern veginn að finna sér lifibrauð. Frænka hans í móðurætt bauð honum að búa hjá þeim sem hann þáði og svo fékk hann stöðu sem kennari samhliða því að skrifa. Varð hann ástfanginn af dóttur frænku sinnar og giftist henni. Það entist þó ekki lengi og þau skildu árið 1894 þegar Wells varð ástanginn af einum nemanda sínum, Amy Catherine Robbins. Giftist hann henni 1895 sama árið og fyrsta skáldsaga hans The Time Machine kom út.
Þau hjónin eignuðust tvo drengi, en Wells virðist þó ekki hafa verið við eina fjölina felldur í kvennamálum og segir sagan að hann hafi átt í ótal ástarsamböndum utan hjónabands en þó með samþykki konunnar. Eignaðist hann t.a.m. dóttur með rithöfundinum Amber Reeves árið 1909 og árið 1914 eignaðist hann son með rithöfundinum og feminístanum Rebeccu West sem var 26 árum yngri en hann.
Eftir útkomu fyrstu bókarinnar, The Time Machine, gat Wells helgað sig skrifum og var það honum mikilvægt enda maðurinn heilsuveill. Hann skrifaði mest skáldsögur og smásögur. Í fyrstu voru þetta rómantískar vísindaskáldsögur, en með tímanum fjarlægðist hann þess konar bækur og fór að skrifa raunsæjar skáldsögur í anda Dickens. Hlutu þær margar góða dóma en urðu samt ekki eins vinsælar og fyrri bækur hans og í dag eru þær flestum gleymdar. Það sem kannski helst stóð þessum sögum fyrir þrifum að mati margra var hve litaðar þær voru af pólitískum skoðunum höfundar; framganga sögunnar vék á stundum fyrir samfélagslegri ádeilu hans sjálfs.
Þá skrifaði hann margar bækur sem fjölluðu um samfélagsmál beint og líka alls kyns hugleiðingar um allt milli himins og jarðar. Hann hafði skoðanir á flestu sem viðvék veröldinni og þróun mannlegs samfélags, s.s. trúmálum, stríði, kynþáttamisrétti og hvað eina.
Var hann með sterkar skoðanir á mörgum málum sem mörgum þóknaðist ekki, og voru bækur hans t.a.m. brenndar af nasistum árið 1933 og í lok seinni heimsstyrjaldarinnar þegar bandamenn komust yfir lista sem SS sveitirnar höfðu tekið saman um þá einstaklinga sem strax yrðu settir í gæsluvarðhald ef Þjóðverjar tækju yfir Bretland, var nafn Wells þar að finna.
Wells lést af ókunnum orsökum 13. ágúst árið 1946.